Sumarið er háannatími hjá Bláa lóninu og tekið er á móti 2500 gestum á dag á sumrin. Þegar mest er heimsækja um 3000 gestir Bláa lónið á einum degi.

Samkvæmt upplýsingum frá Bláa lóninu þá hefur miðnæturopnun og lengri opnunartími yfir hásumarið fallið í góðan jarðveg en Bláa lónið er nú opið frá kl. 09.00 til miðnættis frá 1. júlí til og með 15. ágúst og dreifist gestafjöldinn því yfir lengri opnunartíma en áður.

Aðsóknin það sem af er sumri er svipuð og undanfarin ár en veðrið hefur áhrif á milli daga og aðsókn Íslendinga er meiri þegar sólin skín samkvæmt upplýsingum frá Bláa lóninu.

„Íslendingar gefa sér í auknum mæli góðan tíma þegar þeir heimsækja Bláa lónið og njóta t.d. spa meðferða og veitinga.  Margir Íslendingar eru meðlimir í Vinaklúbb Bláa lónsins og nýta sér fjölbreytt tilboð til klúbbmeðlima. Íslendingum sem eiga árskort í Bláa lónið hefur einnig fjölgað og sá hópur nýtir Bláa Lónið árið um kring,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins.