Hlutabréfamarkaðurinn hefur skroppið saman til muna undanfarnar vikur.

Í marksðsskýrslu Greiningar Glitnis frá því í gær kemur fram að markaðsvirði skráðra félaga hefur farið úr 3.313 milljörðum króna  þegar það var mest um mitt síðastliðið ár í 306 milljarða nú.

Stór hluti af þessum eignum var í höndum innlendra fjárfesta og því er ljóst að mikil eignarýrnun hefur átt sér stað hjá innlendum fjárfestum undanfarið eða nær tvöföld landsframleiðsla segir í skýrslu Glitnis.

Skýrsluhöfundar benda á að að raunvirði er samdrátturinn meiri. Mun þetta hafa talsverð eignaáhrif út í hagkerfið og stór hluti af fjárfestum á þessum markaði er fjárhagslega laskaður eftir umrót síðustu vikna og áhættufælni ríkjandi.

Bankar og fjármálafyrirtæki sem áður vógu um 90% af vísitölunni eru nú að mestu horfin af markaðinum. Eftir standa örfá rekstrarfélög, einn innlendur banki og einn sparisjóður.