Hagnaður Jarðborana hf. nam 301 milljón króna á árinu 2016 og dróst saman um 1.170 milljónir á milli ára eða um 79,5%. Ástæðu lækkunarinnar má rekja til þess að á árinu 2015 voru skuldir félagsins færðar niður um 1.500 milljónir króna. Rekstrartekjur félagsins námu 6.176 milljónum og jukust um 1.949 milljónir á milli ára. Framlegð félagsins var 1.469 milljónir samanborið við 1.058 milljónir frá árinu á undan. Handbært fé í árslok var 558 milljónir og lækkaði um 559 milljónir milli ára. Skýrist lækkunin að mestu af fjárfestingum í varanlegum rekstrarfjármunum.

Eignir félagsins námu 6.480 milljónum króna í árslok og skuldir félagsins námu 3.300 milljónum. Lækkuðu eignir félagsins um 475 milljónir en á sama tíma lækkuðu skuldir um 598 milljónir. Eigið fé var 3.180 milljónir í árslok. Eiginfjárhlutfall var 49% og hækkaði um 5 prósentustig á milli ára.