Rekstur SP-Fjármögnunar gekk mjög vel á árinu 2004. Hagnaður fyrir skatta nam 378,3 milljónum króna, sem er besti árangur í sögu fyrirtækisins. Eftir skatta var hagnaðurinn 303,8 milljónir, sem er tæp 50% aukning frá fyrra ári. Mikil aukning var í útlánum félagsins á árinu 2004 og stækkaði efnahagreikningur félagsins á árinu um 34% og var í árslok 14,9 milljarðar, þar af eru útlán félagsins tæpir 14,3 milljarðar sem er um 35% aukning frá árinu áður.

Eigið fé SP-Fjármögnunar hf. var í árslok kr. 2.022.622.125,- Eiginfjárhlutfall félagsins sem reiknað er samkvæmt 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki (CAD hlutfall) er 13,8% en skv. lögum má það ekki vera lægra en 8%.

Hagnarhlutur á hverja krónu hlutafjár, sem mældur er sem hlutfall hagnaðar og vegins meðaltals hlutafjár á árinu, nam 0,76.

Í árslok 2004 námu vanskil um 1,3% af heildarútlánum og höfðu lækkað úr 2,1% í ársbyrjun. Heildarvanskil eru í árslok um 186 milljónir kr. en á sama tíma nam afskriftarreikningur útlána hins vegar 4% af útlánum eða tæpum 595,8 milljónum króna.

SP-Fjármögnun hf. er eignaleigufyrirtæki og starfar eftir lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Félagið er dótturfélag Landsbanka Íslands hf., sem á 51,0% hlutafjár, en aðrir hluthafar er ýmsir sparisjóðir. Þeir sparisjóðir sem eiga meira en 10% hlutafjár eru Sparisjóður Vélstjóra sem á 17,2% og Sparisjóður Hafnarfjarðar sem á 10,7%.

Starfssemi SP-Fjármögnunar hf. er í meginatriðum tvíþætt. Annars vegar er um að ræða eignaleigusamninga um vélar og tæki við fyrirtæki, ríki, sveitarfélög og aðra rekstraraðila og hins vegar bílalán, bílasamninga, rekstrarleigu og einkaleigu bifreiða til einstaklinga og rekstraraðila.

SP-Fjármögnun hf. var stofnað 10. febrúar 1995 og heldur því um þessar mundir upp á 10 ára starfsafmæli. Í árslok 2004 voru starfsmenn 19 talsins. Allt frá fyrsta heila starfsári fyrirtækisins árið 1996 hefur félagið verið rekið með ágætum hagnaði. SP-Fjármögnun hf. er með góða eiginfjárstöðu, trausta eigendur og mjög hæft starfsfólk. Félagið er því vel í stakk búið að nýta þau mörgu tækifæri sem því bjóðast á markaðnum. Árið fer vel af stað og horfur eru því góðar fyrir félagið á árinu 2005.

Í stjórn SP-Fjármögnunar hf. eru Þorgeir Baldursson formaður, Hallgrímur G. Jónsson, Ingimar Haraldsson, Elín Sigfúsdóttir og Brynjólfur Helgason. Framkvæmdastjóri félagsins er Kjartan Georg Gunnarsson.