Atvinnuleysi á öðrum ársfjórðungi 2008 var 3,1%, sem þýðir að 5.700 manns voru án vinnu og í atvinnuleit. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands. Í Morgunkorni Glitnis segir að þetta sé svipað atvinnuleysi og á 2. fjórðungi 2007, en þá var það 3,2%, og er þetta lága atvinnuleysi talið til marks um að enn hafi ekki slaknað á vinnumarkaðnum.

Atvinnuleysi mældist 3,2% hjá körlum og 2,9% hjá konum. Mest atvinnuleysi var meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, 10,2%.

Af þeim sem voru atvinnulausir á 2. fjórðungi ársins voru tæp 30% búin að finna sér vinnu og 37% höfðu leitað skemur en einn mánuð að vinnu. 5,8% atvinnulausra höfðu leitað að vinnu í 6 mánuði eða lengur.

Atvinnuþátttaka á fjórðungnum var 84%, þar af 89% þátttaka karla og 78% þáttaka kvenna.

Meðalfjöldi vinnustunda var 42,7 klukkustundir á viku, 47,4 klukkustundir hjá körlum og 36,6 klukkustundir hjá konum. Meðalfjöldi vinnustunda hjá þeim sem voru í fullu starfi var 47 klukkustundir á viku.

„Atvinnulausir teljast þeir sem ekki hafa atvinnu í viðmiðunarviku könnunarinnar, eru að leita að vinnu og geta hafið störf innan tveggja vikna eða hafa fengið vinnu sem hefst innan 3 mánaða. Einstaklingar, sem eru ekki í vinnu en eru í námi, flokkast atvinnulausir ef þeir uppfylla skilyrðin hér að ofan,“ segir á vef Hagstofunnar. Úrtakið í könnuninni var 3.834 manns og svarhlutfall var 79,7%.