Alls 31 verslun sem selur íslenska hönnun hefur verið opnuð frá Snorrabraut að Garðastræti undanfarin tíu ár. Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður bendir á þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Þar má nefna verslanir sem selja íslenska hönnun á borð við Andersen & Lauth, 66 gráður Norður, BIRNA, Elm, Spakmannsspjarir og STEiNUNN.

Steinunn segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið að framtíðin liggi í hinum skapandi geira. Þá sé miðborgin miðja hönnunar og lista á Íslandi. „Það er gróska alls staðar. Við höfum bara ekki tekið eftir henni því við höfum verið svo upptekin við stóru fréttirnar sem hertaka alla fréttamiðlana."

Hún segir m.a. að fatahönnun hafi vaxið fiskur um hrygg hér á landi á undanförnum árum. Listaháskóli Íslands eigi stóran þátt í því. Með útskrift nemenda úr ýmsum greinum, svo sem arkitekt og hönnun, fjölgi í flórunni.

„Fatahönnun hefur öðlast nýjan sess hér á landi," segir hún og bendir á að heildarveltan í þeim geira hafi numið um fimm milljörðum á síðasta ári.

Íslensk fatahönnun standi fyllilega jafnfætis alþjóðlegri hönnun.

Nánar má sjá ítarlegt viðtal við Steinunni Sigurðardóttur í Viðskiptablaðinu.