Nýr Vilhelm Þorsteinsson EA kom úr sinni fyrstu veiðiferð í byrjun vikunnar og landaði þá fullfermi af kolmunna sem fékkst á gráa svæðinu suður af Færeyjum. Landað var á Skagen nyrst á Jótlandi, heimabæ Karstensens skipasmíðastöðvarinnar sem einmitt smíðaði nýjan Vilhelm Þorsteinsson.

Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri sagði þessa fyrstu veiðiferð skipsins hafa gengið vel og menn séu að læra á skipið og sáttir um borð.

„Við löndum í Skagen núna. Við ákváðum að fara hingað þótt siglingin sé heldur lengri en til Íslands. Um leið notum við tækifærið og látum laga eitt og annað. Við erum að koma úr fyrsta túr og það það þarf að snurfusa dálítið en ekkert alvarlegt,“ segir Guðmundur. Hann segir að heldur betra verð fáist fyrir aflann í Danmörku en á Íslandi.

Margir á litlum bletti

Guðmundur segir ágætis veiði hafa verið á kolmunnamiðunum. Þarna sé, eins og ávallt á þessum tíma, mörg skip á litlum bletti. Það gangi þó vel að athafna sig þarna þótt veiðarfærin séu af stærri gerðinni.

Skipið kom nánast með fullfermi til Skagen í sinni fyrstu löndun, eða 3.100 tonn. Verið var að landa úr skipinu þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn og sagði Guðmundur að strax yrði haldið á miðin á ný þegar löndun væri lokið.

Vilhelm Þorsteinsson EA er 89 metrar að lengd og 16,6 metrar á breidd og eitt fullkomnasta uppsjávarskip sem smíðað hefur verið fyrir íslenska útgerð. Það er búið tveimur aðalvélum og allur aðbúnaður og tæknibúnaður um borð eins og hann gerist bestur. Burðargetan er vel yfir þrjú þúsund og fimm hundruð tonn í þrettán lestartönkum þar sem aflinn er kældur niður undir núll gráður til að sem best hráefni komi að landi.

Í skipinu eru klefar fyrir fimmtán manns auk sjúkraklefa. Skipið er sérlega rúmgott og þar er líka að finna fallegan borðsal, tvær setustofur, líkamsræktaraðstöðu og gufubað fyrir skipverja. Samherjamenn segja nýja Vilhelm vera af þriðju kynslóð uppsjávarskipa. Skipið var hannað af Karstensens en starfsfólk Samherja kom að vinnunni með sínar hugmyndir, meðal annars varðandi orkunýtingu.

Fyrstu landanir

Kolmunnaskipin tínast heim á leið með sína fyrstu farma á þessari vertíð. Má nefna að Jón Kjartansson SU var á heimleið með fullfermi af kolmunna, 2.200 tonn og Aðalsteinn Jónsson SU landaði á mánudag 2.200 tonnum á Fáskrúðsfirði.

Báðar fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar hafa hafið vinnslu. Bjarni Ólafsson AK kom með um 1.700 tonn af kolmunna til Neskaupstaðar á föstudagskvöld og Börkur NK kom til Seyðisfjarðar með 2.250 tonn degi síðar og er nú aftur kominn á miðin eins og Bjarni Ólafsson. Þá kom Beitir NK til Neskaupstaðar í byrjun vikunnar með rúmlega 2.900 tonn. Hafþór Eiríksson, rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar fiskinn svolítið farinn að horast á þessum árstíma þannig að það komi fyrst og fremst mjöl út úr hráefninu.