Íbúum landsins hefur fjölgað um 1,9% á síðasta ári en þann 1. Janúar voru Íslendingar 313.376 samanborið við 307.672 ári áður. Þetta er minni fjölgun er en árin tvö þar á undan en árið 2006 var fólksfjölgun hérlendis 2,6%, sem er með því mesta sem mælst hefur. Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofu Íslands.

Þar segir að ólík því sem áður var má fremur rekja fólksfjölgun hérlendis undanfarin ár meira til fólksflutninga til landsins en til náttúrulegrar fjölgunar. Flutningsjöfnuður (þ.e aðfluttir umfram brottflutta) hingað til lands nam 1% árið 2007.

Árið 2006 var flutningsjöfnuður 1,8% og 1,3% árið 2005. Fram að því hafði flutningsjöfnuður jafnan verið  undir 1%.

Allt fram til 2005 var náttúruleg fjölgun hærri en flutningsjöfnuður til landsins og mátti fram til þess tíma rekja fólksfjölgun hérlendis að mestu leyti til náttúrulegrar fjölgunar (þ.e fæðingar umfram dauðsföll). Náttúruleg fjölgun árið 2007 var 0,8% sem er sama hlutfall og verið hefur undanfarin ár. Árið 2007 voru aðfluttir umfram brottflutta frá útlöndum 3.097, en fæddir umfram dána 2.624. Til samanburðar voru aðfluttir umfram brottflutta 5.255 en fæddir 2.452 fleiri en dánir árið 2006.

Fjölgar mest á Suðurnesjum

Íbúum fjölgaði á flestum landsvæðum árið 2007, að frátöldum Vestfjörðum og Austurlandi. Líkt og undanfarin ár fjölgaði íbúum á Suðurnesjum mest, um 8,1% milli ára. Á tímabilinu 2002-2007 hefur íbúum Suðurnesja fjölgað um 4,3% að meðaltali á ári.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgaði um 2,4% milli ára, sem er jafn mikil fjölgun og í fyrra. Á Vestfjörðum fækkaði íbúum um 2,2%  milli ára. Það er meiri fækkun en verið hefur en íbúum Vestfjarða fækkaði að meðaltali um 1,6% undanfarin fimm ár. Íbúum á Austurlandi fækkar þó mest á milli ára, eða um 9,4%. Að meðaltali fjölgaði þó íbúum Austurlands um 3,7% á tímabilinu 2002-2007.