*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 28. apríl 2021 18:27

3,2 milljarða hagnaður hjá Marel

Tekjur Marel á fyrsta ársfjórðungi námu tæplega 50 milljörðum króna, sem er um 10,7% hækkun milli ára.

Ritstjórn
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Marel nam 21,2 milljónum evra, eða um 3,2 milljörðum króna, á fyrsta ársfjórðungi 2021, samanborið við 13,4 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Tekjur félagsins jukust um 10,7% milli ára og námu 334 milljónum evra, sem er um 49,9 milljarðar króna. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins samhliða árshlutauppgjöri.

Rekstrarkostnaður félagsins nam 91,7 milljónum evra á fyrstu þremur mánuðum ársins, samanborið við 84,5 milljónir árið áður og jókst því um 8,5% milli ára. 

„Á fjórðungnum voru áskoranir tengdar vöruflutningum og ferðalögum vegna heimsfaraldurs enn meiri en áður. Til þess að tryggja tímanlegar afhendingar og uppsetningar við þessar krefjandi aðstæður þurftum við að taka á okkur hærri kostnað í framleiðslu, þjónustu og flutningum, sem hafði áhrif á framlegð,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í tilkynningu. 

Sjá einnig: Marel kaupir hollenska félagið PMJ

Eignir félagsins námu 1.872 milljónum evra í lok mars. Eigið fé lækkaði um 18 milljónir evra frá áramótum og nam um 941 milljón evra í lok fjórðungsins. Skuldir jukust um 75 milljónir evra á fjórðungnum og námu 932 milljónum í lok mars. Eiginfjárhlutfallið lækkaði því úr 52,8% í 50,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins. 

Metpantanir fyrir stærri verkefni í kjötiðnaði

Pantanabók Marels stóð í 455,3 milljónum evra í lok fjórðungsins, samanborið við 464,6 milljónir árið áður. Pantanir námu 369 milljónum evra, um 5% hækkun frá fyrra ári þegar þær námu 352 milljónum evra sem var metsala á þeim tíma.

„Takturinn er þó annar, þar sem 2020 byrjaði af krafti og hægði svo á í mars samhliða heimsfaraldri, á meðan þetta ár fór hægt af stað en styrktist verulega með mikilli sölu í mars og áframhaldandi góðum horfum,“ segir Árni . 

Metpantanir voru fyrir stærri verkefni hjá kjötiðnaði en félagið náði stórum samningum í Kína og Brasilíu. Pantanir fyrir stærri verkefni hjá alifuglaiðnaði og fiskiðnaði voru þó dræmari í fjórðungnum að sögn Árna. 

„Í Kína náðum við stórum samningi við Muyuan Group, öðrum stærsta svínaræktanda í heimi. Muyuan hefur verið í fóðurframleiðslu og svínarækt og er nú að útvíkka starfsemi sína yfir í vinnslu. Marel mun afhenda samskonar framleiðslulínur og hugbúnað fyrir mismunandi framleiðslustaði félagsins í Kína til að styðja við samræmd vinnubrögð og auka nýtingu og gæði hráefnis. Einnig ber að nefna stóran samning við Frimesa í Brasilíu, en það mun verða ein stærsta og framþróaðasta verksmiðja í Suður-Ameríku fyrir vinnslu á svínakjöti,“ segir Árni.

Stefna að 12% meðalvexti á ári

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum. Félagið gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.

Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.

Stikkorð: Marel