Halli ríkissjóðs á fyrsta ársfjórðungi nam 32 milljörðum króna. Áhrif heimsfaraldursins skýra 12 milljarða króna frávik frá áætlun á afkomu tímabilsins, segir á vef stjórnarráðsins .

Aukinn gjaldfrestur á staðgreiðslu launagreiðenda veldur því að 7 milljarðar króna skatttekjur frestast til næsta árs og útgjöld vegna atvinnuleysis eru 5 milljarðar umfram áætlun.

Tekjur tímabilsins án fjármunatekna námu 180 milljarðar króna sem er um 16 milljörðum lægra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Gjöld tímabilsins án fjármagnsgjalda voru 202 milljarðar króna á fyrsta fjórðungi ársins en þau hækka um 18,2 milljarða frá fyrra ári.

Fjármagnsjöfnuður tímabilsins er neikvæður um tæpa 11 milljarða króna sem er 2 milljörðum umfram áætlun. Fjármagnstekjur námu 23 milljörðum króna sem er 21 milljörðum umfram áætlun og fjármagnsgjöld voru 34 milljarðar króna eða 23 milljarða umfram áætlun, hvort tveggja vegna gengismunar.

Handbært fé ríkissjóðs lækkaði um 19 milljarða króna. Rekstrarhreyfingar voru jákvæðar um 2 milljarða króna, fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 5 milljarða og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar um 16 milljarða króna.

Staða langtímalána var alls 789 milljarðar króna í lok mars 2020 og lækkaði um 26 milljarða frá árslokum 2019, þrátt fyrir óhagstæðan gengismun. Afborganir lána voru 64 milljarðar króna.

Tekjur vegna veiðigjalda lækkuðu um tæpan milljarð króna milli ára en þær námu 1,17 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum ársins.