Ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir rekstrarárið 2005 hefur nú verið lagður fram til fyrri umræðu og kynntur í bæjarstjórn. Ársreikningurinn sýnir að í samanburði við árið 2004 hefur átt sér stað mikill viðsnúningur á rekstri bæjarfélagsins. Rekstrartapi hefur verið snúið í rekstrarhagnað, skuldir hafa lækkað mikið og fjárstreymi er orðið gott.

Rekstrartekjur bæjarins námu rúmlega 893 milljónum króna og rekstragjöld námu rúmum 738 milljónum. Afskriftir námu rúmum 45 milljónum og fjármagnsliðir námu um 81 milljón króna. Niðurstaða rekstrarreiknings samstæðu bæjarins var því um 27 milljónir en árið 2004 nam tap af rekstri samstæðu kr. 138 milljónum.

Afangur af rekstri aðalsjóðs nam 32 milljónum króna en árið 2004 var um 80 milljóna króna tap af rekstri hans. Viðsnúningurinn hefði orðið enn meiri ef ekki hefði verið ráðist í niðurfærslu á skattaskuldum til sveitarfélagsins upp á 22 milljónir króna sem safnast hafa upp á mörgum árum segir í frétt á heimasíðu Hveragerðisbæjar.

Veltufé frá rekstri aðalsjóðs nam kr. 108 milljónum sem er breyting upp á um 117 milljónir á milli ára. Handbært fé frá rekstri aðalsjóðs er 42 milljónir en árið áður var sama tala neikvæð um rúma 1 milljón. Veltufjárhlutfall aðalsjóðs fer úr 1,64 í 2,21 og eiginfjárhlutfall úr 20,2% í 24%.
Engin ný lán voru tekin á árinu 2005 heldur var lögð áhersla á að greiða þau niður og nam lækkun skulda og skuldbindinga ársins rúmlega 150 milljónum króna. Skuldalækkun er fjármögnuð frá rekstri en einnig með sölu eigna. Skuldir og skuldbindingar á íbúa í samanteknum reikningsskilum fara úr kr. 605 þús í 513 þús. Ekki stendur til að taka ný lán árið 2006 og er Hveragerði trúlega eitt af fáum sveitarfélögum í landinu sem rekið er á þann hátt um þessar mundir segir í fréttinni.

Reikningurinn verður lagður fram til síðari umræðu þann 11. maí næstkomandi.