Þjótandi ehf. á Hellu átti lægsta tilboðið í endurgerð á 7,4 km löngum kafla Rangárvallavegar (264), frá Hringvegi að Akurbrekku. Tilboðin voru opnuð í dag, en tilboð Þjótanda hljóðaði upp á 48.479.045 krónur. Áætlaður verktakakostnaður var 78.300.000 og því er tilboð Þjótanda ehf. tæp 62 prósent af áætluðum verktakakostnaði.

Það vakti athygli hversu margir verktakar buðu í verkið eða samtals 32. Einnig að meira en helmingur tilboðsgjafa eða 23 voru undir kostnaðaráætlun og þar af buðu 5 undir 70% af kostnaði. Er þetta fyrsta útboðið á vegum Vegagerðarinnar síðan í haust þegar öllum útboðum var frestað vegna efnahagsástandsins.

Næst lægstir voru Ýtan ehf. og Maríufell Reykjavík sem saman buðu 230.000 krónum meira en Þjótandi.

Verki skal að fullu lokið fyrir 1. október 2009.