Nú liggur fyrir styrkúthlutun AVS rannsóknasjóðsins í sjávarútvegi fyrir árið 2008. Umsóknir voru 130 talsins, en ákveðið var að styrkja 64 verkefni að þessu sinni með samtals 320 milljónum króna.

Sjóðurinn hefur aldrei verið eins öflugur og nú, en ráðstöfunarféð var 100 milljónum króna meira en í fyrra, eða samtals rúmar 350 m.kr. Af þeim 64 verkefnum sem styrkt eru að þessu sinni eru fimm forverkefni eða smáverkefni, en fyrr á árinu voru styrkt 10 forverkefni þannig að heildarfjöldi styrkja 2008 er orðinn 74.

Eins og undanfarin ár eru umsóknir metnar í fjórum faghópum AVS-sjóðsins þar sem teknar eru fyrir umsóknir sem taka á fiskeldi, líftækni, markaði og svo umsvifamesta flokknum sem lýtur að veiðum og vinnslu.

Mest áberandi meðal fiskeldisverkefnanna er,,Kynbætur í þorskeldi og seiðaeldi“, en miklar væntingar eru bundnar við að þorskeldi geti átt bjarta framtíð hér á landi og því nauðsynlegt að leggja mikla áherslu á kynbætur og öflugt seiðaeldi, að því er segir í frétt frá AVS-sjóðnum.