Hlutafjárútboði FL Group til fagfjárfesta lauk í gær og alls óskuðu fjárfestar eftir að kaupa hlutafé fyrir 33,6 milljarða að söluverðmæti, sem jafngildir 320% umframeftirspurn, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

"Þátttaka í útboðinu fór fram úr okkar björtustu vonum og sýnir að FL Group hf. er á réttri leið með þá nýju stefnu sem mörkuð hefur verið. Við þökkum fjárfestum það mikla traust sem þeir sýna félaginu með þessari afdráttarlausu þátttöku þeirra í hlutafjárútboði félagsins," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group.

Á hluthafundi félagins fyrr í þessum mánuði var ákveðið að selja nýtt hlutafé að söluverðmæti 44 milljarðar króna á genginu 13,6. Stærstu hluthafar FL Group hf. keyptu hlutafé að söluverðmæti 28 milljarðar króna í útboðinu.

Fagfjárfestum voru boðnir hlutir fyrir átta milljarða króna en eftirspurn reyndist 33,6 milljarðar króna að söluverðmæti, sem jafngildir 320% umframeftirspurn. Vegna verulegrar umframeftirspurnar ákváðu Kaupþing banki hf. og Landsbanki Íslands hf. að skerða þann hlut sem þeir höfðu ákveðið að skrá sig fyrir.

Kaupþing keypti því hlutabréf fyrir tvo milljarða króna og Landsbanki Íslands hf. keypti fyrir 1,1 milljarð króna. Var því úthlutað hlutafé að söluverðmæti 12,9 milljarðar króna í þeim hluta útboðsins sem beint var að fagfjárfestum.

Í útboðinu gafst áskrifendum kostur á að greiða fyrir hina nýju hluti með reiðufé eða með hlutabréfum í 10 stærstu félögunum í ICEX-15 vísitölunni. Hyggjast áskrifendur greiða fyrir 55,7% hinna nýju hluta með peningum en 44,3% með hlutabréfum.

Meðal kaupenda voru allir helstu lífeyrissjóðir landsins, auk verðbréfasjóða, fjárfestingafélaga og ýmissa innlendra og erlendra fagfjárfesta, segir í tilkynningunni.

Í kjölfar útboðsins verður hlutafé FL Group hf. aukið um 127,5% og fer úr 2.537.000.000 krónum í 5.772.294.118 krónur að nafnverði. Markaðsvirði félagsins, miðað við lokagengi hlutabréfa þess í gær, fer því úr um 35,4 milljörðum í rúma 80,5 milljarða króna.

Fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings banka hf. og Landsbanka Íslands hf. höfðu umsjón með hlutafjárútboðinu.