Ríkissjóði barst í dag greiðsla frá Skipti ehf. fyrir Landssíma Íslands hf. að fjárhæð 66,7 milljarðar króna. Þar af voru 34,5 milljarðar króna greiddir í íslenskum krónum en 32,2 milljarðar í erlendri mynt. Með þessu lýkur stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar og jafnframt hefur ríkið alfarið dregið sig út úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði.

Ríkisstjórnin telur mikilvægt að ráðstöfun söluandvirðis Símans taki mið af meginstefnumiðum ríkisstjórnarinnar eins og þeim er lýst í stefnuyfirlýsingu hennar frá 23. maí 2003, en þar segir meðal annars:

?Að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með því skapast skilyrði til enn frekari vaxtar þjóðartekna og aukins kaupmáttar almennings. Jafnframt er stöðugleiki í efnahagsmálum forsenda aukinnar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs."

Með þetta að leiðarljósi hefur ríkisstjórnin ákveðið að þeim hluta söluandvirðisins sem greiddur er í erlendri mynt, eða 32,2 milljörðum króna, verði varið til þess að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs á árinu 2005.

Ríkisstjórnin telur jafnframt að verja eigi verulegum hluta söluandvirðisins á næstu árum til þess að bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu, styrkja rannsóknar- og þróunarstarf og örva þannig frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun í atvinnulífinu, treysta undirstöður byggðar í landinu og skapa jöfn skilyrði til atvinnu með bættum samgöngum og jöfnun aðstöðu landsmanna hvað varðar aðgengi að fjarskiptum.

Með hliðsjón af þessu hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja fram frumvarp á Alþingi nú í haustbyrjun sem gerir ráð fyrir að tekjum af sölu Símans verði varið á eftirfarandi hátt:

15 milljörðum króna verður varið á árunum 2007 - 2010 til framkvæmda í vegamálum, m.a. til byggingar Sundabrautar, fyrst yfir í Grafarvog og síðan, með tilstilli einkaframkvæmdar, um Álfsnes upp á Kjalarnes. Þá verður að mestu lokið við tvöföldun Reykjanesbrautar og framkvæmdum við helstu þjóðvegi á landinu. Með þessu er framkvæmdafé til vegagerðar meira en tvöfaldar á tímabilinu.

18 milljörðum króna verður varið til uppbyggingar hátæknisjúkrahúss á Landsspítalalóðinni á árunum 2008 - 2012. Með þessu framlagi er unnt að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja aðstöðu fyrir slysa- og bráðaþjónustu og koma upp aðstöðu fyrir rannsóknarstarfsemi.
3 milljörðum króna verður varið til kaupa á varðskipi og flugvél til Landhelgisgæslunnar sem sinna á öryggisgæslu og eftirliti í efnahagslögsögu Íslands ofl.

2,5 milljörðum króna verður varið til að styrkja stöðu Nýsköpunarsjóðs. Með þessu er Nýsköpunarsjóði gert kleift að stofna sameignarsjóði með þátttöku lífeyrissjóðanna auk þess sem stofnfé hans er aukið sem mun örva uppbyggingu sprotafyrirtækja.

2,5 milljörðum króna verður varið til uppbyggingar fjarskiptaþjónustu í samræmi við gildandi fjarskiptaáætlun. Með þess verður unnt að ljúka farsímavæðingu á þjóðvegi nr. 1 og efla stórlega aðgang landsbyggðarinnar að háhraðatengingum.

1 milljarði króna verður varið til þess að hefja nú þegar uppbyggingu búsetuúrræða fyrir geðfatlaða.

1 milljarði króna verður varið til nýbyggingar fyrir Stofnun íslenskra fræða - Árnastofnun í tilefni 100 ára afmælis Háskóla Íslands og 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar árið 2011.

Þessar ákvarðanir verða nánar útfærðar í frumvarpi sem verður lagt fram