Í lok júní námu heildarfjárfestingareignir fasteignafélaganna þriggja, Reita, Regins og Eikar tæpum 324 milljörðum króna og jukust um 2% frá áramótum. Fjárfestingareignir nema því tæplega 13% af vergri landsframleiðslu árið 2017.  Reitir eru stærstir með eignir upp á 135 milljarða og lækkuðu lítillega frá áramótum, þar á eftir kemur Reginn með 102 milljarða en eignir félagsins jukust um 4,8% og Eik með tæpa 87 milljarða en fjárfestingareignir hækkuðu um 2,2% í bókum félagsins. Vaxtaberandi skuldir félaganna námu 198 milljörðum króna í lok júní mánaðar og jukust um 4,3% frá áramótum. Eiginfjárhlutfall Reita var 33,8% í lok tímabilsins, 34,3% hjá Regin og 31,2% hjá Eik.

Lækkað töluvert það sem af er ári

Gengi hlutabréfa fasteignafélaganna hefur lækkað töluvert á síðustu misserum. Það sem af er þessu ári hefur gengi bréfa Regins lækkað um tæp 30%, Reita um 13% og Eikar um ríflega 26%. Þá hafa Eik og Reginn lækkað um rúmlega 40% frá því að hlutabréfaverð þeirra náði hámarki um miðjan maí á síðasta ári. Á sama tíma hafa Reitir lækkað um rúmlega 30%.

„Það eru dekkri horfur í ferðaþjónustunni og á fasteignamarkaði sem hefur haft áhrif á gengi bréfanna. Auk þess sem mikið hefur verið fjárfest á fasteignamarkaði,“ segir Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningardeildar Capacent. „Að mati okkar hjá Capacent voru fasteignafélögin of bjartsýn í rekstrarforsendum sínum er varðar fasteignagjöld.  Af þeim sökum reiknaði Capacent með að fasteignagjöld myndu hækka örlítið hraðar en tekjur á næstu árum.  Hins vegar er hækkunin nú umfram væntingar og hefur hækkunin áhrif á verðmötin til lækkunar. Viðbrögðin á markaði hafa þó verið allt of harkaleg og hefur lækkun á gengi fasteignafélaga verið langt umfram það efni standa til. Markaðsvirði allra fasteignafélaganna fyrir utan Reiti er undir bókfærðu virði þeirra og þá er munurinn mjög mikill í tilfelli Heimavalla,“ segir Snorri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .