*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 5. nóvember 2004 14:03

326 milljóna króna hagnaður Vinnslustöðvarinnar

Ritstjórn

Stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. samþykkti í dag uppgjör félagsins fyrir fyrstu níu mánuði rekstrarársins. Hagnaður tímabilsins nam 326 milljónum króna og jókst um 109 milljónir króna frá sama tímabili í fyrra þegar hann var 216 milljónir króna. Heildartekjur félagsins voru 3.186 milljónir króna og hækkuðu um 500 milljónir króna frá því á sama tímabili fyrir ári. Tekjuaukningin skýrist af auknum umsvifum í vörusölu félagsins sem felast fyrst og fremst í kaupum og sölu á mjöli og lýsi.

Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam 879 milljónum króna og jókst um 4,4% frá sama tímabili í fyrra. Framlegðarhlutfall lækkaði úr 31,3% í fyrra í 27,6% í ár.

Afskriftir voru 482 milljónir króna og jukust um 94 milljónir króna frá sama tímabili í fyrra. Fjármagnsgjöld voru 71 milljónir króna og voru þau 166 milljónum króna lægri í ár en á sama tímabili í fyrra.

Veltufé frá rekstri nam 725 milljónum króna og var 22,8% af rekstrartekjum. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins námu 233 milljónum króna nettó. Stærsta einstaka fjárfestingin var í aflaheimildum í humri.

Heildarskuldir félagsins lækkuðu um 348 milljónir króna frá upphafi árs til septemberloka og eru 5.867 milljónir króna. Nettóskuldir eru 4.432 milljónir króna en þær voru 4.703 milljónir króna í lok ársins 2003. Eigið fé jókst frá áramótum um 15 milljónir króna. Þróun eigin fjár er á þann veg að það eykst um hagnað tímabilsins að upphæð 325 milljónir króna en útgreiddur arður kemur á móti að upphæð 310 milljónir króna.

12 milljón króna hagnaður á þriðja ársfjórðungi

Á þriðja ársfjórðungi, þ.e. 1. júlí til 30. september 2004, voru tekjur 894 milljónir króna og rekstrargjöld námu 780 milljónum króna. Framlegð tímabilsins var því 113 milljónir króna og hagnaður var 12 milljóna króna. Tap var á rekstri félagsins á sama tímabili í fyrra að upphæð 137 milljónir króna.

Endurskoðuð áætlun félagsins hljóðaði upp á 1.000 milljón króna framlegð á rekstrarárinu og eru allar horfur á því að sú áætlun standist. Síldveiðar haustsins hafa farið þokkalega af stað en síðasti ársfjórðungur félagsins veltur mikið á gengi síldveiða og vinnslu. Haldist gengi íslensku krónunnar stöðugt frá lokum september til ársloka er gert ráð fyrir að hagnaður af rekstri félagsins verði 250 milljón króna.