Fjárfestingarsjóðurinn Arctic Ventures, sem að mestu í eigu Íslendinga og er stjórnað af Ragnari Þórissyni, hefur selt allan sinn hlut í sænska netauglýsingarfyrirtækið TradeDoubler. Félagið selur fyrir 215 krónur sænskar á hlut og fær 5 krónu arðgreiðslu til sín.

Þannig lætur nærri að Arctic Ventures fái 574 milljónir sænskar fyrir sinn 9,6% hlut  eða tæplega 5,5 milljarða króna. Félagið eignaðist sinn hlut í upphafi árs 2000 og lætur nærri að ávöxtunin sé um 33 föld stofnfjárframlag.

Í mars síðastliðnum dró AOL, dótturfélag Time Warner, til baka 900 milljón Bandaríkjadala yfirtökutilboð sitt í  TradeDoubler, þar sem ekki voru nægjanlega margir hluthafar reiðubúnir að samþykkja tilboðið.

Í tilkynningu stjórnar til hluthafa í kjölfar þess kom fram að þeir töldu að félagið hafi alla burði til að vaxa enn frekar. Áætlanir gerðu ráð fyrir að velta TradeDoubler verði 26 milljarðar króna á árinu og EBITDA verði tæplega þrír milljarðar.

Skömmu eftir að AOL féll frá tilboðinu birti greiningardeild Nordea bankans nýja greiningu á félaginu þar sem þeir töldu verðmatsgengið vera 275 krónur á hlut eða 22% hærra en tilboð AOL. Arctic Ventures selur nú sinn hlut á sama verði og AOL bauð, plús arðgreiðslu.