Hagvöxtur í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi var 3,3% á ársgrundvelli en fyrri áætlun hafði gert ráð fyrir 2,8% hagvexti. Hagvöxturinn er jafnframt meiri heldur en sérfræðingar bjuggust við en meðalspá þeirra var 3% samkvæmt Bloomberg. Ástæða meiri hagvaxtar er sú að birgðir uxu hraðar en búist hafði verið við auk þess sem að viðskiptahallinn var minni en spáð hafði verið. Hagvöxtur hefur ekki mælst minni í meira en ár enda hefur hátt olíuverð dregið úr einkaneyslu og þar með haldið aftur af hagvextinum.

Einkaneysla, sem vegur 70% af landsframleiðslunni, óx um 1,6% á ársgrundvelli á sama tíma. Þetta er mun minni vöxtur einkaneyslu en á fyrsta ársfjórðungi þegar vöxtur einkaneyslu nam 4,1%. Samneysla, sem er næst stærsti liðurinn í landsframleiðslunni, jókst um 2,2% á ársgrundvelli og dró aðeins úr vextinum frá fyrsta ársfjórðungi þegar hann var 2,5%. Spáð er 3,5% aukningu einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi en mikil óvissa er um þróun einkaneyslunnar á fjórða ársfjórðungi þar sem áframhaldandi hátt heimsmarkaðsverð á olíu gæti dregið úr neyslu almennings.