Í nýrri könnun MMR kemur fram að heil 33,2% aðspurðra Íslendinga eru með áskrift að myndveitunni Netflix. Þá eru 7,5% aðspurðra ekki með áskrift en áætla að kaupa sér hana á næstu sex mánuðum. 59,3% aðspurðra eru þá hvorki í áskrift né áætla að kaupa hana í bráð.

Forvitnilegt er að skoða áskriftina eftir kyni, aldurs- og tekjuhópum, sem og stjórnmálaafstöðu þeirra sem spurðir voru álits. Til að mynda eru konur rétt um 6,4 prósentustigum ólíklegri til að vera með áskrift að þjónustunni en 5 prósentustigum líklegri til að vilja kaupa sér hana innan næstu sex mánaða.

Hálaunafólk líklegra til að vera með Netflix

Þá er sá tekjuhópur sem er hvað líklegastur til að vera með áskrift að Netflix þeir hæst launuðu, eða tekjuhópurinn 1-1,4 milljónir króna í laun á mánuði. Þar eru frá 42-45% aðspurðra með áskrift.

Hins vegar eru þeir aðspurðu sem eru í lægri tekjuflokki ólíklegastir til að vera með áskrift - en 26-27% í tekjuflokknum 250-399 þúsund krónur á mánuði sögðust vera í áskrift að Netflix.

Framsóknarmenn ólíklegastir

Athygli vekur að kjósendur Framsóknar eru allra ólíklegastir til þess að vera með áskrift, en kjósendur Vinstri grænna fylgja þeim hart á eftir - aðeins 17% Framsóknarmanna eru með áskrift og 20% Vinstri grænna.

Þegar kemur að stjórnmálaskoðunum eru Sjálfstæðisflokkurinn og svo Píratar líklegastir til að vera í áskrift að þjónustunni, en 39% Sjálfstæðismanna svöruðu könnuninni jánkandi og 36,8% Pírata.