Ljóst er að ýmsir liðir af rekstraráætlun Hörpu hafa ekki gengið eftir eins og vonir stóðu til. Í áætlun í úttekt KPMG frá því í maí kemur fram að laun og launatengd gjöld verði um 309 milljónir í stað 231,4 milljóna til viðbótar við að fasteignagjöld 336,9 milljónir í stað 99 milljóna. Samtals eru gjöld vanáætluð um 233,9 milljónir við rekstur hússins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Tekjuáætlanir hússins hafa heldur ekki staðist og voru tekjur af ráðstefnuhaldi áætlaðar um 216,4 milljónir en samkvæmt áætlun KPMG verða þær ekki nema um 130,7 milljónir króna á þessu ári. Gert var ráð fyrir að Harpa myndi ná um 45% markaðshlutdeild í ráðstefnuhaldi árið 2012 sem samsvarar um 52.000 manns og að það hlutfall myndi aukast upp í 52% á þremur árum. Framlag frá Stæðum, rekstrarfélagi bílastæðahúss Hörpunnar, var áætlað um 133,2 milljónir en í áætlun KPMG er framlagið talið vera um 37 milljónir króna.

Samtals voru tekjur því 255,9 milljónum lægri en lagt var upp með og kostnaður við rekstur Hörpu 233,9 milljónum hærri. Þar munar því um 489,8 milljónum króna.