Hagnaður Jarðbaðanna á Mývatni nam 332 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 313 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrartekjur námu 981 milljón króna og rekstrargjöld 572 milljónum króna. Eignir Jarðbaðanna námu tæplega 1,5 milljörðum króna og eigið fé ríflega 1,3 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var því 91% og skuldir námu 140 milljónum króna.

Greiddur var tæplega 198 milljóna króna arður til hluthafa Jarðbaðanna á síðasta ári vegna fyrra rekstrarárs. Laun og launatengd gjöld námu 257 milljónum króna og fjöldi ársverka var 29. Guðmundur Þór Birgisson er framkvæmdastjóri Jarðbaðanna.

Fjárfestingafélagið Tækifæri, sem er að stærstum hluta í eigu KEA, er stærsti eigandi Jarðbaðanna með tæplega 44% hlut í sinni eigu. Næststærsti hluthafi er svo félagið Íslenskar heilsulindir, sem er í eigu Bláa lónsins, en félagið á 25% hlut. Þá á Landsvirkjun tæplega 19% hlut.