Í lok ársins 2016 bjuggu 338.450 manns á Íslandi, þar af 171.110 karlar og 167.330 konur. Landsmönnum fjölgaði um 840 á ársfjórðungnum. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.

Þar af bjuggu flestir á höfuðborgarsvæðinu eða 216.940 manns en 121.500 utan þess. „Á 4. ársfjórðungi 2016 fæddust 940 börn, en 590 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 470 einstaklingar til landsins umfram brottflutta, af þeim voru flestir á þrítugsaldri (160). Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 60 umfram brottflutta og var aldursskipting þeirra nokkuð jöfn. Aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 410 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu og voru 150 af þeim á þrítugsaldri,“ er tekið fram í frétt Hagstofunnar.

Danmörk helsti áfangastaður brottfluttra

Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra á ársfjórðungnum, en þangað fluttust 140 manns. Í heildina fluttust 300 íslenskir ríkisborgarar til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar af 570 alls. Af þeim 1.700 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 690 manns.

„Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (210), Noregi (170) og Svíþjóð (70), samtals 450 manns af 640. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 800 til landsins af alls 2.110 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst, en þaðan fluttust 210 erlendir ríkisborgarar til landsins. Í lok fjórða ársfjórðungs bjuggu 30.380 erlendir ríkisborgarar á Íslandi,“ er tekið fram að lokum.