„Við erum að fara yfir umsóknirnar og velja þá sem koma í viðtal,“ segir Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar/TBWA. Fyrirtækið auglýsti um síðustu helgi eftir „nýrri Sóley“ í stað Sóleyjar Bjarkar Gunnlaugsdóttur sem hefur séð um móttöku og skrifstofustjórnun hjá fyrirtækinu undanfarin ár. Margir vilja greinilega fylla skarðið sem hún skilur eftir sig og hafa 339 manns sótt um starfið. Umsóknarfrestur er runninn út en hægt var að sækja um á Facebook.

„Mér sýnist að þetta sé svo flott fólk að við verðum í vandræðum með að skera þetta niður fyrir 70 manns sem eru áhugaverðir til viðtals,“ segir Valgeir Magnússon, sem fær það verkefni að taka öll viðtölin. Á meðal umsækjenda er fjöldi hámenntaðs fólks með masters- og doktorsgráður.

„Viðkomandi þarf að hafa hæfileika til að halda utan um mikið af sérverkefnum fyrir mig, halda utan um rekstur skrifstofunnar, sjá um samskipti við viðskiptavini, halda utan um alla vinninga sem við erum með í leikjum á samfélagsmiðlum fyrir viðskiptavini og síðast en ekki síst sjá um ávaxtastund sem er tvisvar á dag. Við munum vanda valið vel því allir treysta á þessa manneskju og sú er að hverfa frá hefur verið fullkomin í starfi svo það er mikið mál að fylla skarðið sem hún skilur eftir sig,“ segir Valgeir og bætir við að viðtöl muni fara fram í lok vikunnar og eitthvað fram í næstu viku. „Svo verður vonandi einstaklingur ráðinn sem gefur starfinu nýtt nafn byrjaður í september,“ segir hann.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Sóley Björk Gunnlaugsdóttir sem hefur séð um móttöku og skrifstofustjórnun hjá auglýsingastofunni Pipar/TBWA. Leitað er logandi ljósi að eftirmanni hennar.