*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 28. október 2020 17:08

3,4 milljarða hagnaður Íslandsbanka

Íslandsbanki hagnaðist um 3,4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður 2,1 milljarði.

Ritstjórn
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Eyþór Árnason

Íslandsbanki hagnaðist um 3,4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi, en á sama tímabili í fyrra hagnaðist bankinn um 2,1 milljarð. Arðsemi eigin fjár var 7,4% á ársgrundvelli, samanborið við 4,7% á sama tímabili árið 2019. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri bankans. 

Hreinar vaxtatekjur jukust um 1,4% á milli ára. Vaxtamunur var 2,5% samanborið við 2,6% á öðrum ársfjórðungi. Hreinar þóknanatekjur jukust um 12,3% á milli ára, en samkvæmt uppgjörinu skýrist það af hærri tekjum frá eignastýringu, fjárfestingabankastarfsemi og verðbréfamiðlun en einnig vegna sölu Borgunar hf. þar sem eyðingarfærslur fyrsta árshelmings voru bakfærðar í kjölfar sölu dótturfélagsins. Hrein fjármagnsgjöld voru 255 milljónir króna.

Stjórnunarkostnaður lækkaði um 8,9% sem skýrist af áframhaldandi kostnaðarhagræðingu og aðgerðum fyrri tímabila. Kostnaðarhlutfall bankans var 46,7% á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 56,3% á sama tímabili í fyrra, og uppfyllir því markmið bankans um að kostnaðarhlutfall skuli vera lægra en 55%.

Þá nam neikvæð virðisbreyting útlána á ársfjórðungnum 1,1 milljarði króna, sem ku að mestu leyti tengjast áhrifum af COVID-19 faraldrinum og uppfærslu efnahagssviðsmynda. Útlán til viðskiptavina jukust um 37 milljarða króna á fjórðungnum, en þar vegur þyngst aukning húsnæðislána. Loks jukust innlán viðskiptavina um 17,4 milljarða króna á fjórðungnum, aðallega vegna aukningar í innlánum frá einstaklingum og lífeyrissjóðum.

„Hagnaður Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi nam 3,4 ma. kr. Vöxtur var í heildartekjum á milli ára og rekstrarkostnaður hélt áfram að lækka eða um 9% milli ára vegna kostnaðaraðgerða fyrri tímabila. Efnahagsreikningur bankans stækkaði um 2% á milli fjórðunga en mikil eftirspurn hefur verið eftir húsnæðislánum þar sem lægri vextir húsnæðislána spila stórt hlutverk. Stafrænar lausnir hafa hjálpað okkur að veita skjótari þjónustu en ella í einum mesta fjölda umsókna frá upphafi.

Árið hefur einkennst af þjónustu og lausnum fyrir okkar viðskiptavini sem hafa orðið fyrir mestum áhrifum vegna COVID-19 en um 700 viðskiptavinir hafa fengið frystingu á lánum sínum. Í nýrri efnahagsspá er búist við samdrætti á árinu 2020 en að viðsnúningur með jákvæðum hagvexti verði strax á næsta ári. Við munum halda áfram að vera til staðar fyrir okkar viðskiptavini og munum verða þátttakendur í viðspyrnunni með þeim.

Bankinn var umsjónaraðili með vel heppnuðu hlutafjárútboði Icelandair á fjórðungnum sem kemur til með að tryggja góða undirstöðu fyrir ferðaþjónustuna þegar ferðatakmörkunum léttir. Í aðdraganda útboðsins kom sjálfvirk stofnun viðskipta með fjármálagerninga sér vel en þúsundir viðskiptavina nýttu lausnina við þátttöku í útboðinu.

Íslandsbanki kynnti í lok október sjálfbæran lánaramma, fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja. Ramminn mun auðvelda skuldabréfaútgáfur á sjálfbærum bréfum. Við erum einnig mjög stolt af þekkingarverðlaunum Félags viðskipta- og hagfræðinga sem Íslandsbanki hlaut fyrir að skara fram úr á sviði sjálfbærrar þróunar. Verðlaunin eru viðurkenning á sjálfbærnistefnu bankans og því mikilvæga hlutverki sem fyrirtækið gegnir í því að vera hreyfiafl til góðra verka í íslensku samfélagi,“ er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, í árshlutauppgjörinu.