Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur að krafa sem Síminn gerí í þrotabú Glitnis yrði samþykkt sem almenn krafa í búið, samkvæmt 113. grein gjadþrotalaga. Krafa er því samþykkt að fjárhæð 10,6 milljarðar króna.

Krafan var reist á grundvelli gjaldmiðlaskiptasamninga sem Síminn og Glitnir gerðu með sér árið 2008 sem voru á gjalddaga 24. október, 18. nóvember og 1. desember það ár. Þegar slitastjórn tók Glitnir yfir í byrjun október var ljóst að samningarnir yrðu ekki efndir.

Ágreiningur var um það hvort miðað ætti virði samningsins við gengi íslensku krónunnar eins og það var skráð hjá evrópska seðlabankanum eða íslenska Seðlabankanum. Síminn bar því við að leggja bæri til grundvallar gengi sem Seðlabanki Evrópu hefði skráð á gjalddaga hvers samnings, en Glitnir hf. hélt því fram að miða bæri við skráð gengi hjá Seðlabanka Íslands.

Krafðist Síminn því að samþykkt yrði krafa að fjárhæð 34,2 milljarðar króna, til vara að samþykkt yrði krafa upp á 24,4 milljarða en til þrautavara að samþykkt yrði krafa upp á 10,6 milljarða króna. Þrautavarakrafan var samþykkt.