Mikil eftirspurn ku vera eftir fjárstuðningi ríkisins til reksturs hagkvæmra leiguíbúða, svokallaðra almennra íbúða. Rann frestur út þann 22. febrúar og alls bárust umsóknir um stofnframlög til byggingar eða kaupa á 472 almennum íbúðum fyrir alls 4.006.570.097 kr. til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) sem veitir stofnframlögin, að því er kemur fram í fréttatilkynningu HMS.

Til úthlutunar að þessu sinni séu allt að 3,4 milljarðar og sérfræðingar HMS muni meta hvaða umsóknir fá brautargengi að þessu sinni.

„Að mati HMS sýnir þessi mikla eftirspurn eftir stofnframlögum að enn sé mikil þörf fyrir leiguíbúðir á viðráðanlegu verði um allt land fyrir fólk sem uppfyllir skilyrði um tekju- og eignamörk almennra íbúða,“ segir í tilkynningunni.

Alls bárust umsóknir um 29 verkefni frá 13 umsækjendum. Sótt var um stofnframlög til byggingar á 235 íbúðum, kaupa á 220 íbúðum og til breytinga á húsnæði í eigu sveitarfélags fyrir 17 íbúðir. Alls er sótt um stofnframlög í 15 sveitarfélögum um land allt en flestar íbúðirnar eiga að vera á höfuðborgarsvæðinu.

„Íbúðirnar 472 sem sótt var um stofnframlög vegna skiptast niður í flokka. Umsækjendur um stofnframlögin áætla að byggja eða festa kaup á 164 íbúðum ætlaðar leigjendum undir tekju- og eignamörkum, 26 íbúðum fyrir námsmenn, 121 félagslegri íbúð á vegum sveitarfélaga, 113 íbúðum fyrir öryrkja og fatlaða, 38 íbúðum til byggingar sértækra búsetuúrræða og 10 íbúðum fyrir aldraða,“ segir í tilkynningu HMS.

Þörf á ódýrara leiguhúsnæði

Nýútgefin greining HMS á íbúðaþörf leiði í ljós að enn sé þörf á uppbyggingu á nýju húsnæði hér á landi, ekki síst á leigumarkaði. Almenna íbúðakerfið sé hugsað til þess að mæta tekjulægstu hópunum sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu á húsnæðismarkaði. Í greiningunni komi fram að í þeim hópum sé enn þá mikil þörf um allt land, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.

Þrátt fyrir vísbendingar um batamerki á leigumarkaði á árinu 2020, þ.e. aukið framboð og lækkun leigu, þá hafi leiguverð aðeins lækkað um 2% á milli ára í síðustu mælingum. „Á sama tíma hafa miklar vaxtalækkanir dregið úr greiðslubyrði húsnæðiseigenda á nýjum lánum um 25 - 30%, þrátt fyrir hratt hækkandi húsnæðisverð. Mælingar HMS sýna að leiguverð er enn mjög hátt í hlutfalli af ráðstöfunartekjum heimilanna og á meðan fjárhagur húsnæðiseigenda hefur batnað á milli ára hefur fjárhagur leigjenda versnað.“

Samkvæmt skilgreiningu Eurostat teljist húsnæðiskostnaður mjög íþyngjandi nái hann 40% af ráðstöfunartekjum. Í leigukönnunum HMS hafi hlutfall leigufjárhæðar af ráðstöfunartekjum mælst um 40% að meðaltali síðustu ár. „Að auki jókst hlutfall leigjenda umtalsvert sem greiðir enn meira í leigu, þ.e. meira en 50%, úr 22,6% árið 2019 í 30,1% árið 2020. Hæst er hlutfallið á leigumarkaði í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins en þar segjast 45% leigjenda greiða meira en helming ráðstöfunartekna í leigu,“ segir í tilkynningu HMS.

„Það er jákvætt að sjá hversu margir eru tilbúnir að byggja upp húsnæði og leigja út í langtímaleigu á hagkvæmu verði með stuðningi ríkis- og sveitarfélaga. Við vitum að það eru tekjulægri hóparnir sem eiga erfiðast uppdráttar á húsnæðismarkaði og greiningar okkar sýna að það er erfið staða víða um land hjá þeim sem eftir sitja á leigumarkaði og hafa ekki notið góðs af vaxtalækkunum síðustu misseri. Það er því ljóst að enn er mikil þörf á því að auka framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði fyrir tekju- og eignalága víða um land,“ er haft eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra HMS.