KFC ehf., rekstraraðili KFC á Íslandi, hagnaðist um 92 milljónir króna árið 2019 og dróst hagnaðurinn saman um rúmlega 64 milljónir króna. Tekjur höfðu aukist um 176 milljónir króna en kostnaðurinn jókst eilítið meira.

Í ársreikningi félagsins kemur fram að Íslendingar hafi verslað skyndibita á stöðum keðjunnar fyrir tæplega 3,4 milljarða króna rekstrarárið 2019. Laun og annar starfsmannakostnaður, fjöldi stöðugilda var 145 og fækkaði um eitt, hækkuðu um 75 milljónir króna milli ára, námu 1.146 milljónum, og þá hækkaði annar rekstrarkostnaður um 90 milljónir króna. Rekstrarhagnaður fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld var 122 milljónir króna og dróst saman um 66 milljónir króna.

Eignir félagsins vorur metnar á 1.133 milljónir króna í ársbyrjun 2020 og stóðu í stað. Skuldir námu 330 milljónum króna og er enga langtímaskuldbindingu að finna í bókum félagsins. Handbært fé nam 303 milljónum króna og óráðstafað eigið fé var 801 milljón króna. 50 milljón króna arður var greiddur til eina hluthafans, Helga Vilhjálmssonar í Góu.

Í skýringu við ársreikninginn kemur fram að heimsfaraldur kórónaveirunnar hafi haft lítil áhrif á rekstur félagsins og að ekki standi til að nýta úrræði stjórnvalda. Íslendingar hafa þót verið nokkuð duglegir við að brúka ferðagjöf stjórnvalda á staðnum en 20 milljónir hafa runnið til félagsins í gegnum hana.