Af 8.900 heimilum með lán í erlendri mynt eða blönduð lán þá eru 3.400 í neikvæðri eiginfjárstöðu. Þar af eru 2.400 með meira en 5 milljónir króna í neikvæðri eiginfjárstöðu.

Þetta kemur fram í niðurstöðum starfshóps Seðlabanka Íslands sem safnað hefur saman  gögnum um áhrif fjármálakreppu á efnahag heimilanna.

Þar kemur fram að 89% heimila í gagnagrunni starfshópsins hafa einungis fasteignaveðlán í krónum, 3% hafa einungis slík lán í erlendri mynt og 8% hafa blönduð lán. Þetta er miðað við fasteignamat í desember sl.

Af 80 þúsund húseigendum í gagnagrunninum þá eru 70 þúsund með húsnæðisskuldir sem eru minni en 30 milljónir króna.

Af 67 þúsund húseigendum með lán í krónum þá eru 11.200 heimili í neikvæðri eiginfjárstöðu. Þar af eru 2.600 með meira en 5 milljónir króna í neikvæðri eiginfjárstöðu

Þá kemur fram að mánaðarleg greiðslubyrði fasteignaveðlána 75% heimila í gagnagrunninum er minni en 100 þúsund króna en aukning á mánaðarlegri greiðslubyrði fasteignaveðlána í krónum er í flestum tilvikum minni en 50 þúsund krónur.

Um 30% heimila eingöngu með fasteignaveðlán í erlendri mynt hafa orðið fyrir meira en 50 þúsund króna hækkun greiðslubyrðar. Hið sama á við tæplega 18% heimila með blönduð fasteignaveðlán

Sjá nánar á vef Seðlabankans en þar má einnig nálgast niðurstöðurnar á powerpoint skjali.