Skráð atvinnuleysi í ágúst 2012 var 4,8% en að meðaltali voru 8.200 atvinnulausir í ágúst og fækkaði atvinnulausum um 172 að meðaltali frá júlí en vegna árstíðasveiflu í framboði vinnuafls (minna áætlað vinnuafl) er hlutfallstala atvinnuleysis 0,1 prósentustigi hærri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinnumálastofnun.

Meðalatvinnuleysi tímabilið janúar til ágúst á þessu ári var 6%, en 7,7% á sama tímabili 2011. Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 60 að meðaltali og konum um 112. Atvinnulausum fækkaði um 108 á höfuðborgarsvæðinu en um 64 á  landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 5,5% á höfuðborgarsvæðinu og fór úr 5,4% í júlí. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 3,5% og breyttist ekki frá júlí. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum 7,6% og fór úr 7,4% í júlí. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra 1,5%. Atvinnuleysið var 4,2% meðal karla og fór úr 4,1% í júlí og 5,5% meðal kvenna og hækkaði úr 5,4% í júlí.

Fjöldi atvinnulausra í lok mánaðar
Alls voru 8.346 manns atvinnulausir í lok ágúst. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 7.524. Fækkun atvinnulausra í lok ágústmánaðar frá lokum júlí nam 350 en 65 færri karlar voru á skrá og 285 færri konur en í júlílok. Á  landsbyggðinni fækkaði um 94 og um 256 á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 5.303 og hefur fækkað um 138 frá lokum júlí og eru um 64% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í ágúst. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár var 3.408 í ágústlok og fækkaði um 10 frá lokum júlí.

Atvinnuleysi frá ágúst 2010 til ágúst 2012.
Atvinnuleysi frá ágúst 2010 til ágúst 2012.