Hagnaður MP Fjárfestingarbanka hf. á fyrri hluta ársins nam 345,3 milljónum króna eftir skatt samanborið við 421,4 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn svarar til þess að arðsemi eigin fjár hafi verið jákvæð um 40,0% á ársgrundvelli. Þjónustutekjur bankans hafa aukist um 82% miðað við sama tímabil í fyrra og verkefnastaða bankans er afar traust. Á tímabilinu hóf bankinn að sölutryggja skuldabréfaútboð sparisjóða, annarra fjármála- og orkufyrirtækja. Þá hóf bankinn viðskiptavakt með ríkisvíxla og er nú viðskiptavaki í öllum tegundum ríkisverðbréfa í íslenskum krónum svo og íbúðabréfum.

Ástæður þess að hagnaður bankans er minni nú en á sama tíma í fyrra er m.a. sú að á síðasta ári innleysti bankinn hagnað af innlendri hlutabréfaeign. Síðan þá hefur bankinn dregið úr innlendri hlutabréfaeign sinni fyrir eigin reikning. Eigið fé bankans var 2.131 milljónir króna um mitt ár 2005, en var 1.919 milljónir króna í árslok 2004. Á tímabilinu greiddi bankinn 143 milljónir króna í arð til hluthafa.

Eiginfjárhlutfall MP Fjárfestingarbanka hf., reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 18,3% en má lægst vera 8,0%. Niðurstöðutala efnhagsreikningsins var 16.137 milljónir króna um mitt ár 2005, en var 12.262 milljónir í árslok 2004. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að reksturinn hefur gengið vel það sem af er seinni hluta ársins 2005 og eru horfur góðar. Um þessar mundir er bankinn að hefja starfsemi í London þar sem útlánasvið bankans verður staðsett.