*

mánudagur, 3. ágúst 2020
Innlent 14. janúar 2020 16:14

345 þúsund fyrir mál sem aldrei varð

Úrskurðarnefnd lögmanna hefur hafnað því að fella úr gildi eða lækka reikning vegna dómsmáls sem aldrei var höfðað.

Jóhann Óli Eiðsson
Kærandi málsins vildi höfða dómsmál en ekki var grundvöllur fyrir því.
Haraldur Guðjónsson

Tæplega 345 þúsund króna reikningur lögmannsstofu til einstaklings, vegna dómsmáls sem aldrei var höfðað, er ekki úr hófi. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar lögmanna.

Umræddur einstaklingur leitaði til lögmanns vegna mögulegs meiðyrðamáls og deilu um bílskúr á lóð í Lauganeshverfinu. Á umræddri lóð er hús með þremur eignarhlutum og varðaði deilan nágrannaerjur íbúa í húsinu við meðeigendur sína. Má það ráða af úrskurðum hinna ýmsu úrskurðarnefnda að deilan hafi staðið yfir lungann af þessari öld.

Kærandi málsins setti sig í samband við lögmann í júní í fyrra með beiðni um hagsmunagæslu vegna málsins. Laut málið að „ætluðu ofbeldi og stórfelldum ærumeiðingum þriggja aðila gagnvart kæranda“. Lögmaðurinn hafði ekki tök á að taka málið að sér en mælti með öðrum lögmanni. Sá fundaði með kæranda og fékk frá honum mikinn gagnabunka vegna málsins.

Fyrirliggjandi gagnastafli bar með sér að vinna við málið gæti mögulega orðið tímafrek. Var því farið fram á það að 300 þúsund krónur yrðu greiddar inn á fjárvörslureikning stofunnar. Var það gert samdægurs og hófst vinna í kjölfarið. Vinna lögmannsins leiddi þó í ljós að möguleg ærumeiðandi ummæli, sem hægt væri að gera mál út af, hefðu fallið árin 2015 og 2016 og sök vegna þeirra því fyrnd. Ekki væri því grundvöllur fyrir málshöfðun.

Buðu fjórðungsafslátt af reikningnum

Aðilarnir funduðu í byrjun júlí á ný. Vildi kærandi málsins höfða dómsmál út af tilteknum skúr á lóðinni en áður hafði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála fjallað um þann skúr. Mánuði síðar funduðu aðilar á ný og tjáðu lögmennirnir konunni að þar þeir teldu ekki grundvöll fyrir málshöfðun. Fór það svo að hún afturkallaði lögmannsumboð þeirra og krafðist þess að fá krónurnar 300 þúsund endurgreiddar.

Lögmennirnir töldu á móti að þeir hefðu lagt talsverða vinnu í málið. Annar lögmaðurinn hefði lagt í það 8,5 klukkustunda vinnu, á tímagjaldinu 26.900 krónur auk virðisaukaskatts, en hinn 90 mínútna vinnu en taxti hans var 32.900 krónur auk vasks. Samanlagt gerði það tæplega 345 þúsund krónur en lögmennirnir buðu fjórðungsafslátt þannig að heildar upphæð yrði 261 þúsund.

Því sáttaboði hafnaði kærandi og vildi fá sitt til baka. Að mati hans hafði hann verið „svikinn og blekktur“ af lögmönnunum. Þeir hefðu tekið málið að sér, búið til óþarfa verkefni og þar með kostnað fyrir kæranda málsins. Fyrir „þessa gagnslausu vinnu hafi [þeir] síðan ætlað sér að taka þóknun fyrir, á grundvelli blekkinga og svika“. Lögmaðurinn sem kærður var taldi á móti að hann hafi veitt faglegt mat á stöðunni eftir yfirferð gagnanna. Það gæti ekki staðist að hann ætti ekki að taka sér þóknun fyrir störf sín auk þess að vinnu við málið hafi verið stillt í hóf.

Að mati úrskurðarnefndarinnar var málflutningur kæranda málsins engum rökum studdur. Lögmaðurinn hafi tekið málið til skoðunar og að ráðgjöf hans hafi verið í samræmi við áskilnað laga og siðareglna lögmanna. Reikningar málsins hafi verið í samræmi við tímaskýrslur og tímafjöldi eðlilegur. Að endingu var það mat nefndarinnar að áskilið tímagjald væri ekki úr hófi og kröfum kæranda því hafnað að öllu leyti.