Þrátt fyrir að heldur lítil viðskipti hafi verið með bréf Heimavalla á síðustu misserum má segja að félagið hafi átt fyrirsagnir gærdagsins. Gengi bréfa félagsins hækkaði um tæp 6% í 1,5 milljarða viðskiptum sem er um 35% af allri veltu með bréf félagsins á síðasta ári.

Þá hefur veltan á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar farið vel af stað á þessu ári. Nú þegar níu viðskiptadagar eru eftir af mánuðinum nemur veltan 47,1 milljarði króna sem er tæplega 5,6 milljörðum meira en allan janúarmánuð á síðasta ári.

Mest velta hefur verið með bréf Marel það sem af er árinu eða tæplega 7,9 milljarðar en þar á eftir koma bréf Arion banka með rúmlega 5,9 milljarða veltu og bréf VÍS með veltu.

Það sem af er janúarmánuði hafa 2.373 viðskipti átt sér stað á markaðnum en í janúar í fyrra voru þau 2.854 talsins. Flest Viðskipti hafa verið með bréf Icelandair eða 298 en þar á eftir kemur Marel þar sem en viðskipti með bréf félagsins hafa verið 277 talsins á árinu.

Þá nemur hækkun úrvalsvísitölu Kauphallarinnar 1,3% það sem af er ári en hún stendur nú í 2.149 stigum. Alls hafa fjórtán félög af tuttugu hækkað það sem af er ári. Mest hækkun hefur verið á bréfum Haga eða 14,2% en þar á eftir koma bréf Skeljungs og Eikar sem bæði hafa hækkað um 12,8% auk þess sem bréf Icelandair hafa hækkað um 12,5%.

Mest lækkun hefur hins vegar verið á bréfum Arion banka eða 4,6% og þar á eftir koma bréf Eimskip sem hafa lækkað um 1,6%.