Hagnaður samstæðu Jarðborana fyrstu sex mánuði ársins 2006 var 402 milljónir króna samanborið við 299 milljónir á sama tíma árið áður að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

Rekstrartekjur félagsins námu 2.853 milljónum króna, en voru 2.312 milljónir á sama tíma árið áður. Veltuaukningin er því um 23,4%. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 746 milljónum króna en var 555 milljónir á sama tíma í fyrra. Afkoman er í góðu samræmi við rekstrarmarkmið ársins.

Heildareignir samstæðunnar voru bókfærðar á 9,3 milljarða króna og skiptust þannig að fastafjármunir námu 4,9 milljörðum en veltufjármunir voru um 4,4 milljarðar króna.

Í lok tímabilsins nam eigið fé félagsins um 2,4 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var 26%. Hlutafé samstæðu Jarðborana er 400 milljónir króna að nafnverði.

Að sögn Bents S. Einarssonar, forstjóra Jarðborana, gekk starfsemi samstæðunnar afar vel á fyrri helmingi ársins 2006 en stórir samningar sem fyrirtækið hefur gert á undanförnum mánuðum skipta þó mestu þegar litið er til framtíðar. Bent segir í tilkynningu félagsins að þetta sé besta afkoma fyrirtækisins frá upphafi og vel horfi um rekstur félagsins á seinni helmingi ársins.