Í nýútkominni grein eftir Guðrúnu G. Þórarinsdóttur, sérfræðingi hjá Hafrannsóknastofnun, er fjallað um ígulkerarannsóknir sem fóru fram í sunnanverðum Breiðafirði 2015. Heildarstærð veiðisvæðis í sunnanverðum Breiðafirði var 9,7 ferkílómetrar og var meðalþéttleiki allra svæða til samans um 3,5 einstaklingar á fermetra.

„Þetta var hluti af stærra  Evrópuverkefni um rannsóknir á ígulkerum á norðurslóðum (Northern Periphery and Arctic Programme (NPP) sem fór fram 2015-2018. Okkar þátttaka var styrkt af Byggðasjóði en auk Hafrannsóknastofnunur tóku Matís og Þórshólmi ehf. í Stykkishólmi, sem er stærsti einstaki aðilinn í nýtingu ígulkerja á landinu, þátt í verkefninu hérlendis.

Innlendur þáttur rannsóknarinnar snerist að stofnstærðarmati á aðalveiðislóðinni í sunnanverðum Breiðafirði, stærðarsamsetningu stofnsins, kynþroska, hrygningu og gæði hrogna, veiðtækni en einnig vinnslu og flutningsleiðum.

„Ígulker eru einn af þeim nytjastofnum sem við gefum ráðgjöf um á hverju ári. Stofnstærðarmat á ígulkerum hefur ekki farið fram áður, en við ættum og gjarnan vildum gera á hverju ári. En þetta er lítill stofn og er það því ekki fremst í forgangsröðuninni,“ segir Guðrún.

Tvær gerðir nýtanlegra ígulkera eru við Ísland. Skollakoppur er eina tegundin sem er og hefur verið nýtt, enda vill markaðurinn hana frekar en marígul, sem er hin tegundin. Sunnanverður Breiðafjörður hefur alla tíð verið aðalveiðisvæði skollakopps við Ísland þó tegundin finnist víða við landið. Til rannsóknanna var notaður ígulkeraplógur og neðansjávarmyndavél.

„Við tókum fjölda botnmynda af rannsóknarsvæðunum innan veiðisvæðisins. Ígulkerin voru talin af myndunum (fjöldi/m2) og fjöldanum breytt yfir í þyngd/m2, eftir að meðalþyngd einstaklinga frá hverju svæði hafði verið fundin. Strax á eftir var farið með plóg yfir svæðið og þyngd ígulker/m2 sem kom í plóginn fundin. Til að finna hversu mikið plógurinn tók upp af þeim ígulkerum sem voru á svæðinu,  voru þessar tölur bornar saman og þannig var veiðihæfnin metin,“ segir Guðrún.

Heildarveiðisvæðið samanstóð af sjö undirsvæðum þar sem þéttleikinn var mismunandi, eða 1,7-6,9 einstaklingar á fermetra. Sú niðurstaða leiddi til 2.700 tonna stofnstærðar þegar notuð var meðalþyngd ígulkera frá hverju svæði sem var mismunandi. Meðalveiðihæfni plógsins var mismunandi eftir svæðum og tengdist dýpi og botngerð. Meðalveiðihæfnin var metin 29%.