Tekjur af erlendum ferðamönnum á 2. ársfjórðungi námu tæplega 12 milljörðum króna og drógust saman um 90% borið saman við sama ársfjórðung árið áður. Þá námu tekjurnar ríflega 118 milljörðum króna.

Í júní voru tæplega 20 þúsund starfandi samkvæmt skrám í einkennandi greinum ferðaþjónustu eða um 35% færri en sama mánuð árið áður. Frá þessu er greint á vef Hagstofu.

Velta samkvæmt virðisaukaskattskýrslum nam rúmlega 37 milljörðum í einkennandi greinum ferðaþjónustu á tímabilinu maí til júní 2020. Á sama tíma ári áður nam veltan 112,5 milljörðum og hefur því dregist saman um 67% á milli ára. Ef litið er á einkennandi greinar ferðaþjónustu utan veitingasölu dróst veltan saman um 74% á milli ára.

Í ágúst er gert ráð fyrir því að gistinætur hafi dregist saman um 58%, fækkað úr tæplega 523 þúsund í 221 þúsund samanborið við ágúst í fyrra. Hjá útlendingum fækkar gistinóttum um 79% á milli ára en mikil aukning er hjá Íslendingum milli ára, þær voru 121 þúsund samanborið við 38 þúsund í ágúst 2019.