Citigroup, stærsta fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna miðað við markaðsvirði, hefur birt afkomutölur sínar fyrir þriðja ársfjórðung. Hagnaður félagsins nam 7,14 milljörðum bandaríkjadala á fjórðungnum og jókst um 35% frá sama ársfjórðungi í fyrra. Hluta þessa mikla hagnaðar má rekja til þess að félagið seldi Travelers Life & Annuity og nokkur önnur alþjóðleg tryggingarfyrirtæki sín á fjórðungnum en söluhagnaðurinn af þeim er talinn hafa verið um 2,12 milljarðar dala segir í Vegvísi Landsbankans.

Mikill tekjuvöxtur var hjá fjárfestingaarmi félagsins eða um 35% frá fyrra tímabili. Hagnaður fjárfestingaarmsins nam 1,8 mö.USD og var tæplega fjórðungi meiri en á sama tímabili í fyrra. Mun minni vöxtur var aftur á móti á þeim hluta starfseminnar sem snýr að einstaklingum og minni fyrirtækum. Þannig jukust tekjur þessa hluta starfseminnar aðeins um 4% á milli nýliðins ársfjóðungs og sama ársfjórðungs í fyrra en hagnaður minnkaði um 13% á sama tímabili.

Síðastliðið ár hafa viðskipti með bréf í Citigroup farið fram á genginu 42-50 dollarar á hlut. Þegar þetta er skrifað kl. 16:00 hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 0,2% frá opnun markaða í morgun og stendur gengið í 44,96 USD á hlut, en það sem af er ári hefur gengi bréfa í félaginu lækkað um 6,7%.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.