Íslenska lyfjafyrirtækið Coripharma hefur lokið 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu til að styðja enn frekar við framtíðarvöxt félagsins með þróun nýrra samheitalyfja og áframhaldandi uppbyggingu söluteymis. Er hlutafjáraukningin í samræmi við áður kynntar áætlanir félagsins og önnur hlutafjáraukningin á tæpu ári því í apríl í fyrra lauk félagið 2,5 milljarða hlutafjáraukningu.

CP Invest slhf., nýtt félag í eigu Iðunnar framtakssjóðs og lífeyrissjóða, var stærsti einstaki þátttakandinn í hlutafjáraukningunni, sem var að ljúka. Nýja félagið, sem var stofnað sérstaklega í tengslum við fjárfestinguna í Coripharma, er nú stærsti hluthafinn með um 32% eignarhlut. Iðunn er í rekstri Kviku eignastýringar.

Meðal annarra hluthafa Coripharma má nefna fjárfestingafélagið Snæból, sem er í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar, Eignarhaldsfélagið Hof, sem er í eigu bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona, Framtakssjóðurinn TFII, sem er í stýringu Íslenskra verðbréfa, og BKP Invest ehf., sem er í meirihlutaeigu Bjarna K. Þorvarðarsonar, stjórnarformanns Coripharma.

Jónína segir mjög hvetjandi að finna fyrir svo sterkum áhuga íslenskra fjárfesta á áframhaldandi vexti Coripharma.

„Þessi fjármögnun er hluti af skýrri stefnu okkar og mun skipta sköpum fyrir áframhaldandi rannsókna- og þróunarstarfsemi, auk uppbyggingar á sölu- og markaðsstarfi erlendis,“ segir Jónína.

Hilmar Bragi Janusson, framkvæmdastjóri Iðunnar framtakssjóðs, segir að Coripharma sé mikilvæg fjárfesting fyrir Iðunni.

„Hlutafjáraukningin treystir stoðir félagsins enn frekar fyrir áframhaldandi vöxt og framgang,“ segir Hilmar Bragi. „Styrkur Coripharma felst í sýn og reynslu frumkvöðlanna, sem að félaginu standa og reynslumiklu teymi stjórnenda. Fjárfestingunni er ætlað að fylgja eftir og styrkja getu Coripharma á sviði hugverkaiðnaðar en félagið hefur nú þegar þróað, framleitt og hafið sölu á verðmætum samheitalyfjum á mörkuðum sem það hefur tryggt sér aðgang að.“

Skráning á markað?

Síðasta sumar hóf Coripharma sölu á sínu fyrsta samheitalyfi en það er flogaveikilyfið Eslicarbazepine. Jónína segir að stefnt sé að því að koma einu lyfi á markað á þessu ári og öðru á því næsta. Frá og með árinu 2024 stefni Coripharma að því að koma fimm lyfjum á markað árlega.

Stjórnendur Coripharma hafa lýst því yfir að til skoðunar sé að skrá félagið á markað. Jónína segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um slíkt en vel mögulegt að félagið verði skráð á næstu misserum og það yrði um leið lokaskrefið í fjármögnun félagsins. Samfara skráningu myndi félagið fara í opið hlutafjárútboð.

Ráðgjafar Coripharma við hlutfjáraukninguna voru fyrirtækjaráðgjöf Kviku sem umsjónaraðili og fyrirtækjaráðgjöf Arion og fyrirtækjaráðgjöf Kviku sem söluráðgjafar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .