Icelandair metur samkomulagið við Boeing , vegna kyrrsetningar MAX-vélanna, á 260 milljónir dollara, eða um 35,3 milljarða króna. Matið samanstendur af bótum vegna málsins, fækkun MAX-þota og afslætti á þær MAX vélar sem félagið á enn eftir að fá afhentar.

Flugfélagið pantaði sextán 737-MAX þotur árið 2013 en félagið tilkynnti fyrir rúmri viku að það hafi samið við Boeing um að falla frá kaupum á fjórum þeirra. Miðað við núverandi flotaáætlun Icelandair verður búið að taka tólf MAX þotur í notkun árið 2022, en þar af hefur félagið fengið sex þeirra afhentar. Miðað við núverandi tímaáætlun verða þrjár þotur afhentar í vetur og síðustu þrjár veturinn 2020-21.

Icelandair hyggst ekki fjölga flugvélum við núverandi flotaáætlun fyrr en árið 2024. Þangað til mun félagið nota MAX-vélaranar, B757 þoturnar og B767 breiðþoturnar. Flugfélagið mun keyra á 20 þotum í ár en tólf flugvélar verða í geymslu. Miðað við núverandi áætlun verða níu þotur í geymslu á næsta ári og sjö árið 2022.

Boeing 757 þotunum verður fækkað í áföngum á næstu árum en félagið var með 26 slíkar þotur á síðasta ári. Um 22 þeirra eru í notkun í ár en þær verða nítján á næsta ári. Um tvær til fjórar B757 þotur verða teknar úr flotanum á hverju ári og stefnir félagið á að einungis níu verða enn í notkun árið 2025.

Í fjárfestakynningunni segir að þær flugvélar sem fara úr flotanum verða seldar, breyttar í fraktflugvélar eða settar í verð í gegnum önnur úrræði líkt og bútun eða endurvinnslu. Einnig er tekið fram að félagið sé að skoða valkosti fyrir langtímaendurnýjun flotans, þar á meðal að bæta við B737 þotum eða panta A320 þotur frá Airbus.

Skjáskot úr fjárfestakynningunni fylgja með hér að neðan.