Hagnaður Sparisjóðs Kópavogs á fyrstu sex mánuðum ársins nam 43 milljónum króna fyrir skatta, hagnaður eftir skatta nam 35 milljónum króna. Á árinu 2003 nam tap af rekstri 11 milljónum króna. Á fyrri helmingi ársins 2003 nam hagnaður fyrir skatta 37 milljónum króna og eftir skatta 30 milljónum króna.

Arðsemi eigin fjár var 11,3% á ársgrundvelli samanborið við 9,2% arðsemi á sama tímabili á síðasta ári.

Hreinar rekstrartekjur námu 271 milljónum króna samanborið við 286 milljónir króna á sama tímabili 2003. Hreinar vaxtatekjur námu 142 milljónum króna samanborið við 191 milljón krónur á sama tímabili 2003.

Kostnaðarhlutfall SPK heldur áfram að lækka, var 71,6% samanborið við 72,6% á sama tímabili á síðasta ári.

Framlag í afskriftareikning útlána nam 34 milljónum króna samanborið við 42 milljónir króna á sama tímabili 2003. Almennur afskriftareikningur, reiknaður af útlánum og veittum ábyrgðum, er 1,3%.

Lántaka SPK hefur á tímabilinu lækkað um 489 milljónir króna, heildareignir námu 8.545 milljónum króna hinn 30. júní samanborið við 9.105 milljónir í árslok 2003.

Lækkun varð á innlánum á tímabilinu og námu þau 6.020 milljónum króna hinn 30. júní samanborið við 6.110 milljónir króna í árslok 2003.

Útlán til viðskiptamanna hafa aukist um 3,7% frá áramótum eða um 223 milljónir króna og námu 6.204 milljónum króna hinn 30. júní. Hlutfall útlána til einstaklinga hefur vaxið á undanförnum árum og er nú 46% af heildarútlánum SPK.

Eigið fé nam 636 milljónum króna hinn 30. júní og CAD-hlutfall SPK var 11,1%. Kröfur á lánastofnanir námu 770 milljónum króna, hafa lækkað um 66% eða um 1.528 milljónir króna frá áramótum.