Sala kjúklingavængja og flatskjáa í tengslum við úrslitaleik NFL-deildarinnar, Super Bowl, gæti numið yfir 10 milljörðum dala. Yrði það í fyrsta sinn sem 10 milljarða múrinn yrði brotinn.

Fjallað er um gríðarlega neyslu vegna atburðarins, sem er einn sá stærsti í Bandaríkjunum á vef Bloomberg. Matsölukeðjan Buffalo Wild Wings í Minneapolis telur að seldir verði um sex milljónir kjúklingavængja vegna Super Bowl. Er það 9% aukning frá því í fyrra.

Að meðaltali munu Bandaríkjamenn eyða 59,33 dollurum í vörur og varning tengdum Super Bowl, sem er 13% meira en eytt var að jafnaði í fyrra. Það þýðir að heildareyðsla verður um 10,1 milljarður dala, ef spár ganga eftir.

Þá munu um 34,9 milljónir Bandaríkjamanna halda Super Bowl-partý en 31,6 milljónir manna héldu slíkt teiti í fyrra. Þá ætla 61,2 milljónir manna að mæta í slík samkvæmi, samkvæmt könnun sem gerð var í Bandaríkjunum.

Úrslitaleikurinn í ameríska ruðningnum fer fram næstkomandi sunnudag. Það verða Green Bay Packers og Pittsburgh Steelers sem keppa um ofurskálina í ár.