Vladímír Pútín Rússlandsforseti, Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu og Andrej Babis forsætisráðherra Tékklands eru meðal þeirra sem koma fram – beint eða óbeint – í 12 milljóna skjala 3 terabæta leka fjármálaupplýsinga sem gengur undir nafninu Pandóruskjölin. Sá síðastnefndi er í framboði í þingkosningum í lok vikunnar.

Fleiri aðilar sem fram koma í skjölunum eru Tony Blair, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, Abdullah II konungur Jórdaníu, og Uhuru Kenyatta forseti Kenía. Alls er að finna upplýsingar um 35 sitjandi og fyrrverandi þjóðarleiðtoga og á fjórða hundrað embættismenn í skjölunum.

Blair-hjónin keyptu erlent fyrirtæki sem átti skrifstofuhúsnæði í London, og komust þannig hjá 54 milljóna króna stimpilgjaldi, þar sem fasteignin skipti ekki um eigendur. Pútín er tengdur við leyndar eignir í Mónakó í gegnum vini og vandamenn.

Babis gaf ekki upp erlent fjárfestingafélag í sinni eigu, sem keypti tvö sveitasetur í Suður-Frakklandi. Zelensky færði eignarhlut sinn í leynilegu erlendu fyrirtæki annað stuttu fyrir sigur sinn í forsetakosningunum árið 2019.

Kenyatta og fjölskyldumeðlimir áttu net erlendra eignarhaldsfélaga sem áttu eignir fyrir milljarða króna, án þess að gefa það upp.

Umfjöllun BBC .

Umfjöllun Guardian .

Umfjöllun NPR .