Tæplega 35 þúsund umsóknir hafa borist til embættis ríkisskattstjóra um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag. Umsóknirnar hafa borist frá 53.600 einstaklingum frá 100 löndum.

Þá hafa borist tæpar fjögur þúsund umsóknir um að ráðstafa séreignalífeyrissparnaði inn á fasteignalán. Til viðbótar hefur verið byrjað á tæpum fjögur þúsund umsóknum þess efnis, án þess að þeim hafi verið lokið. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir í samtali við Morgunblaðið að umsóknarferlið fyrir séreignalífeyrissparnaðinn sé flóknara en umsóknarferlið vegna leiðréttingarinnar. Því sé eðlilegt að fólk fari tvisvar inn í kerfið áður en umsókn er lokið.

Opnað var fyrir umsóknir um höfuðstólslækkun þann 18.maí og rennur umsóknarfrestur út 1.september nk. Fram kemur á vef leiðréttingarinnar að ekki verði unnt að taka erindi til afgreiðslu sem berast eftir þann tíma.