Tilraunaverkefni á vegum Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar hefur gengið mjög vel. Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur hafa samkvæmt framkvæmdastjóranum náð að skila verkefnum vikunnar innan styttri tímaramma. Ólafía Runólfsdóttir, formaður VR, styður styttingu vinnuvikunnar og segir vinnuhóp innan ASÍ vera að vinna að innleiðingu þess á almennum vinnumarkaði.

Árið 1930 spáði hagfræðingurinn John Maynard Keynes því að innan 100 ára yrði vinnuvikan einungis 15 tíma löng. Núverandi lög á Íslandi kveða á um 40 tíma vinnuviku. Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í 35 tíma hefur farið fram frá því í mars hjá tveimur stofnunum á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Barnavernd Reykjavíkur. Markmið verkefnisins er að kanna áhrif styttri vinnuviku á líðan og starfsanda og hvort styttingin hafi áhrif á gæði þjónustunnar. Fyrirkomulagið verður endurskoðað í september en gæti haldið áfram fram í mars á næsta ári.

Gæti þurft að auka mannaflann

Barnavernd Reykjavíkur hefur stytt vinnuvikuna með því að loka klukkan 12 á föstudögum, en þá tekur við bakvakt og er öllum neyðartilvikum sinnt. Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar í Reykjavík, segir tilraunina ganga mjög vel og mikla ánægju ríkja með þetta fyrirkomulag. „Það hefur verið svakalega jákvætt fyrir starfshópinn að fá að taka þátt. Ég hef ekki fengið kvartanir eða athugasemdir vegna þessa fyrirkomulags,“ segir Halldóra. „Það eru allir mjög ákveðnir í því að láta þetta ganga upp. Fólk kemur úthvílt á mánudegi og finnst það vera búið að vera í smá fríi, þetta bætir líðan fólks,“ segir Halldóra.

Hún segir þó að enn eigi eftir að sjást mælingar á því hvort fólk sé að vinna lengra fram á daginn hina dagana eða bóka mikið viðtöl í hádeginu. Halldóra segir aðspurð að fólki hafi tekist að hagræða tímanum og skila sínum verkefnum innan tímans. Hins vegar telur hún að ef horft er til framtíðar þá þurfi kannski að auka mannaflann til að fólki líði vel og verkefnum sé sinnt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .