Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, hefur sett fram áætlun um örvun hagkerfisins þar í landi. Áætlunin verður kynnt fyrir ríkisstjórninni á morgun.

Samkvæmt AP fréttastofunni er áformað að verja 3,5 trilljónum japanskra jena í örvandi aðgerðir, meðal annars niðurgreiðslur og til að búa til störf.

Abe hóf þriðja kjörtímabil sitt á miðvikudag, aðfangadag, og er undir miklum þrýstingi vegna efnahagsástandsins.

Í dag komu fram tölur sem sýna að verðbólga minnkaði í nóvember, og einkaneysla dróst sömuleiðis saman. Laun lækkuðu um 1,1 prósent miðað við nóvember í fyrra. Atvinnuleysi er 3,5 prósent.

Nýju aðgerðunum er ætlað að koma japanska hagkerfinu, sem er það þriðja stærsta í heiminum, út úr kreppu. Að sögn japanskra fréttamiðla fer stór hluti upphæðarinnar til sveitarstjórna, sem eiga meðal annars að reyna að örva einkaneyslu. Þá er talað um að fyrirtæki sem flytja höfuðstöðvar sínar frá Tókýó og til annarra borga fái skattafslátt. Þessi tillaga er þó mjög umdeild og ekki víst hvort hún náist í gegn.