Árleg verðbólga í Eþíópíu mældist 35,1% í desembermánuði síðastliðnum, en hún hefur ekki mælst hærri í nærri áratug.

Verðbólgan jókst um tæp 2% frá því í nóvember þegar hún mældist 33%. Matarkostnaður jókst um tæp 42% milli ára í desember. Mikil hækkun varð á grænmeti, kjöti, mjólk, osti, eggjum og kryddum, auk kaffibauna og drykkja, að því er fram kemur í frétt hjá Bloomberg.

Borgarastríðið í Eþíópíu, á milli stjórnarhersins og hermanna frá Tigray-héraði, hefur nú staðið yfir í fjórtán mánuði, en stríðið hefur haft mikil áhrif á búvöruframleiðslu og fæðuframboð.

Auk þess hefur gengi gjaldmiðils landsins, Birr, gefið verulega eftir og veikst um meira en 20% gagnvart bandarískum dollar á síðastliðnu ári, samkvæmt frétt Bloomberg.