Fjölgun gistinátta erlendra ferðamanna á hótelum hér á landi fjölgaði um 33,9% milli ára ef horft er á landið í heild að því er fram kemur í hagsjá Landsbankans .

Fjölgunin var þó mismikil eftir svæðum, minnsta fjölgunin var á Suðurlandi, eða um 28,9% en næstminnst á höfuðborgarsvæðinu eða um 31%. Hlutfall höfuðborgarsvæðisins hefur minnkað frá árinu 2010 þegar það var 72,9% af öllum seldum gistinóttum á landinu, en á síðasta ári var það 65,9%.

Mest fjölgun var á Norðurlandi á síðasta ári en utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurlands nam hækkunin á bilinu 38,1% á Vesturlandi og Vestfjörðum upp í 55,1% á Norðurlandi.

Minnst fjölgun á höfuðborgarsvæðinu en mesta nýtingin

Ef horft er til tímabilsins frá 2011 þegar uppsveiflan hófst í ferðaþjónustu hefur fjölgun gistinátta verið minnst á höfuðborgarsvæðinu, eða 193%. Mest var hún hins vegar á Austurlandi eða ríflega 350%.

Á sama tíma hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um 285%, en herbergjanýtingin hefur jafnframt haldist best á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún var 85,4% á síðasta ári. Minnst var hún hins vegar á Austurlandi eða 44,2%.