Ef miðað verður við samningsvexti gengistryggðra lána mun um 350 milljarða króna eignartilfærsla eiga sér stað frá fjármálafyrirtækjum yfir til lántakenda. Að minnsta kosti 100 milljarðar króna munu lenda á ríkissjóði, og þar með skattgreiðendum, ef sú eignartilfærsla á sér stað. Ef farið verður eftir tilmælum Fjármálaeftirlits (FME) og Seðlabanka Íslands um að miða við lægstu vexti Seðlabankans við uppgjör lána, sem áður voru gengistryggð, verður sú eignartilfærsla um 140 milljarðar króna.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að stjórnvöld telji ljóst að ríkissjóður verði fyrir miklu fjárhagslegu tjóni ef farin verður sú leið að láta áður gengistryggða lánasamninga standa að öllu öðru leyti en því að gengistryggingin verði afnumin. Þannig muni stór hluti af hinni 350 milljarða króna eignartilfærslu lenda á ríkissjóði verði þetta raunin, þar sem hann þyrfti að leggja bönkum í sinni eigu til aukið eigið fé svo þeir gætu staðið slíkt högg af sér.

Það mun koma í hlut dómstóla að skera úr um þá réttaróvissu sem hefur skapast um vaxtakjör lánanna. Málflutningur fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær í máli þar sem tekist er á um vexti á gengisbundnu bílaláni.

Sigurmar K. Albertsson, lögmaður Lýsingar sem sækir málið, sagði fyrir dómi að það væri ósanngjarnt að miða við samningsvexti sem tilteknir eru í samningnum þegar gengistryggingin ætti ekki við. Vextir hefðu byggst á því að lánið væri gengistryggt. Aðalkrafa Lýsingar er sú að lánið verði gert upp miðað við verðtryggingu samkvæmt gjaldskrá Lýsingar. Fyrsta varakrafa er sú að miðað verði við verðtryggingu Seðlabanka Íslands og taka aðrar varakröfur mið af því að óverðtryggðir lágmarksvextir ráði því hvernig vextir á láninu séu.

Jóhannes Árnason hdl. frá JÁS lögmönnum, lögmaður stefnda í málinu, hafnaði öllum kröfum Lýsingar og sagði að vextirnir sem tilteknir eru í samningnum ættu að gilda, þar sem Hæstiréttur hefði þegar dæmt á þá leið að samningurinn væri í gildi þrátt fyrir að gengistryggingarákvæðið væri ólöglegt.