Talið er að heildarvelta vegna veðmála sem tengjast Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu, sem nú fer fram í Sviss og Austurríki, muni nema 350 milljónum punda. Mótið er nú komið vel á veg.

Breska veðmálafyrirtækið Ladbrokes telur að aukinn áhugi á knattspyrnu á heimsvísu og aukning veðmála á netinu muni bæta upp fjarveru Englands, Skotlands, Wales og Norður-Írlands á mótinu. Alþjóðleg starfsemi ýmissa breskra fyrirtækja og fjöldi evrópskra leikmanna upprunninna utan Englands muni styðja við aukin veðmál. Fyrir mótið var Þýskaland talið sigurstranglegast af veðmöngurum með stuðulinn 4/1. Spánn hafði stuðulinn 5/1 fyrir mótið og Ítalía og Portúgal 7/1.

Spánn hefur sýnt sannfærandi spilamennsku á mótinu og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum strax eftir fyrri tvo leikina í riðlakeppninni. Ítalía þurfti hins vegar að sigra Frakkland í lokaleiknum til að tryggja sér farmiðann í átta liða úrslitin. Þýskaland lenti einnig í vandræðum í sínum riðli og tapaði fyrir Króatíu í öðrum leik riðlakeppninnar.

Spánverjar þykja nú hins vegar vera líklegri en áður með sigurstuðulinn 4/1. Þjóðverjar þykja síður líklegir til sigurs á mótinu en áður og hafa stuðulinn 11/2. Ladbrokes hefur nú um tvær milljónir viðskiptavina á sínum snærum. Viðskiptavinir frá 200 löndum leggja reglulega undir peninga í tengslum við hina ýmsu íþróttaviðburði.