Íslendingar munu verja um 350 milljónum króna í ýmiss konar jólatónleika fyrir hátíðarnar en í allflestum tilvikum selst upp á alla þá tónleika sem í boði eru. Af heildarsölutölum vegna aðgangseyris vega tónleikar Frostrósa þyngst en áætlaður aðgangseyrir á tónleika Frostrósa er um 250 milljónir króna úti um allt land.

Frostrósir munu halda samtals 11 tónleika í tónlistarhúsinu Hörpu og fari svo að uppselt verði á alla þessa tónleika munu um 18 þúsund manns sækja þá og verja til þess tæpum 200 milljónum króna. Áætlað er að um 10 þúsund manns sæki tónleika Frostrósa á landsbyggðinni og verji til þess tæpum 50 milljónum króna.

Jólagestir Björgvins Halldórssonar velta einnig töluverðum upphæðum en aðgangseyrir á tvenna tónleika Björgvins í Laugardalshöll er tæpar 63 milljónir króna, þ.e. ef uppselt verður á báða tónleikana. Til stóð að halda þrenna tónleika í samstarfi við N1 og Senu en síðustu tónleikunum hefur nú verið aflýst.

Í fyrra héldu Jólagestir Björgvins þó fimm tónleika og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var sú tónleikaröð rekin með nokkru tapi.

Þá mun Sigríður Beinteinsdóttir jafnframt halda sérstaka jólatónleika auk þess sem Baggalútur mun halda sínu árlegu jólatónleika. Til viðbótar mun Sigurður Guðmundsson og Memfismafían halda sérstaka jólatónleika en þá eru ótaldir Þorláksmessutónleikar Bubba Morthens og árlegir jólatónleikar Fíladelfíu.

Frostrósir ekki skilað ársreikningi

Um þetta er fjallað í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Rétt er að taka fram að hér er aðeins fjallað um áætlaðar tekjur af aðgangseyri á umrædda jólatónleika. Vænta má að heildarvelta allra þessa tónleika slagi hátt í milljarð króna þegar með er talið laun til tónlistarmanna, leiga á hljóðkerfum, ljósum og öðrum tækjum, leiga á húsnæði, ferðakostnað o.s.frv.

Útgáfufélög Frostrósa hafa ekki skilað ársreikningi fyrir árin 2009 og 2010 en sem fyrr segir er mesta veltan í kringum þá tónleika.